18. september 1989

 

 

18. september 1989

 

ÉG - er kona sem er að verða 45 ára. Mig langar að byrja á að segja ykkur frá mömmu minni og hennar veikindum eins og ég man eftir því sem unglingur.

Í dag eru 27 ár síðan mamma mín dó úr brjóstakrabba. Hún dó þann 18. september 1989, aðeins 38 ára gömul. Hún féll frá á besta aldri, frá börnunum sínum litlu systur 9 ára, bróður mínum 14 ára og mér 18 ára. Hún fékk brjóstaskrabba þegar hún var 31 árs, þegar hún var enn með litlu systur á brjósti. Þetta taldist óvenjulegur aldur fyrir konu að fá greiningu svona unga. - Hún fór í brottnám á brjóstinu þetta sumar, ég man það að koma heim úr sveitinni sem ég hafði verið send í, og mamma mátti ekki halda á litlu systur. Svo fór hárið, hún fór í lyfjameðferðir inn á Landspítala. Ég fór stundum með henni, sennilega þar sem hún þorði ekki að keyra alveg ein þetta ferðalag úr úthverfi höfuðborgarsvæðisins. Ég man vel eftir lyfjainndælingunum og flökurleikanum sem hún var með og hvað hún var lasin og mikið í rúminu. EN þessi kraftakona hélt heimili og naut engrar aðtsoðar, við systkin upplifðum normal æsku á þessum tíma og fengum að vera börn. Hún taldist læknuð. 

Svo var hún að þjást af brjósklosi sem hafði verið frá því hún var yngri. Ég man alla vega eftir einni brjósklosaðgerð og sennilega var það í þeirri síðari sem kom í ljós að brjósklosið var ekki brjósklos, heldur voru þetta meinvörp í beinum út frá helvítis brjóstakrabbamanum sem var að yfirataka hana. Þarna fékk hún að vita, 35-36 ára gömul að hún mundi ekki lifa þetta af. 

Pabbi og mamma fóru í að ferðast, við fórum hringinn kringum landið og svo sumarið sem ég varð 16 ára, fórum við til Costa del Sol. Við vorum fjölskylda sem bjuggum í kjallaranum hjá ömmu og afa og áttum ekkert eigið húsnæði, pabbi og mamma höfðu átt mig tvítug og svo bættust við hin börnin og mamma var heimavinnandi og okkar staða var þannig eflaust ekki góð fjárhagslega. Bíllinn sem við "áttum" var vinnubíllinn hans pabba sem við fengum leyfi til að nota á sumrin og slíkt.

En þarna förum við í fallega og afslappaða ferð til Costa del Sol í þrjár vikur, dásamleg ferð og góðar minningar sem voru búnar til, eins og í hringferðinni um landið með 5 manna fjöldkyldu í A tjaldi á Volvó. 

Svo verður mamma meira veik og stefnir í að leggjast inn varanlega en þessi kraftakona náði því á hörkunni að ferma miðbarnið, bróðir minn. Veislan var á veitingasal og fengum skemmtiatriði. Þetta þótti mjög "grand" á þessum tíma. En pælingin var náttúrlega að ekki væri hægt að gera þetta á annan hátt með fárveika mömmu. 

Daginn eftir fór hún inn á deild og var komin í hjólastól og kom ekki heim aftur. Þetta var vorið 1989. Þetta sumar var hún á 11E og á Reykjalundi. Við vissum í hvað stefndi, maður skynjaði það þótt enginn segði það beinum orðum.

Svo var það 18. september sem var skólasetning hjá mér í Kvennó, eftir verkfallavesen sem seinkaði setningunni, að ég fer með systur mína, eins og svo oft, með mér á skólasetninguna. Hún þvældist mikið með mér og mínum kærasta. Ég man að þegar við vorum að keyra burtu frá skólasetningunni, finnst mér ég sjá bílinn hennar svilkonu mömmu og pabba þar í og þau voru svo dimm á svipinn. Ég var samt ekki viss. Við vorum á leið heim á Álftanesið og þau fóru í Kvennó að leita okkur uppi. Svo fer ég og kaupi KFC handa litlu systur, tríta hana dálítið, og förum heim og þá mætum við þeim í dyrunum með þessar fréttir. Ég man lítið annað eftir þessum degi. Næstu daga var rennirí af fólki og blómasendingar og eitthvað fleira. Aldrei hittum við prest eða neinn til að ræða þessa sorg, við systkin. Pabbi var á fullu að halda öllu saman og að vinna.

Ég man eftir jarðarförinni, hvað það var erfitt að ganga út með krans í hendi og vera svona útgrátin og fara svo út í hávaðasama sunnnarigninguna við Bessastaðakirkjuna og verða blautur inni að beini við að kveðja hana ofan í moldina. Ég held að Kvenfélagið hafi verið með kaffi í skólanum þarna á eftir, man ekkert eftir því.

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband